HEILBRIGÐIS OG ALMANNATRYGGINGAKERFIÐ Á ÍSLANDI

Skipulag heilbrigðis og almannatryggingakerfisins á Íslandi, undirstaða starfseminnar byggð á lögum, reglugerðum, stefnumótun, áætlunum og ákvörðunum stjórnvalds.

ÍSLENSK STEFNA UM UPPLÝSINGASAMFÉLAGIÐ 2004–2007

Stefna íslensku ríkisstjórnarinnar, Auðlindir í allra þágu – Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007, skilgreinir áætlaða þróun rafrænnar heilbrigðisþjónustu ásamt annarri samfélagsþjónustu. Leiðarljós stefnunnar er einstaklingurinn, tækifæri hans og velferð í samfélaginu. Stefnt er að því að Ísland verði í fararbroddi þjóða í nýtingu upplýsingatækni með áherslu á að nýta tækifærin, vinna breytingar af ábyrgð, tryggja öryggi og auka lífsgæði almennings. Rafrænt aðgengi almennings að þjónustu stofnana á sviði heilbrigðis- og félagsmála eru meðal áhersluatriða, með rafræn samskipti TR og almennings þar með talin. Í stefnunni er reiknað með öllum þjónustuþáttum TR aðgengilegum á netinu, eigi síðar en árið 2006, innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár og úttekt HTR á möguleikum þeirra sem búa við skerta færni til að nýta tæknina [5].
Upplýsingavæðingunni er ætlað að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri stofnana á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins (HTR) og stuðla þannig að verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Megin markmiðin eru að tryggja örugga og góða þjónustu og skapa gott starfsumhverfi [21].

HEILBRIGÐIS- OG TRYGGINGAMÁLARÁÐUNEYTIÐ

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (HTR) var formlega stofnað 1. janúar 1970, með gildistöku laga um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969. Ráðuneytið hefur á hendi yfirstjórn og ábyrgð heildarstefnumótunar og framkvæmd heilbrigðismála og málaflokka er tilheyra starfsemi heilbrigðis- og almannatryggingamála á Íslandi, í samræmi við lög, reglugerðir og aðra tilskipun.

Málaflokkar HTR eru:

Heilbrigðisþjónustan á Íslandi er fjármögnuð samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnarinnar og byggir að mestu á skattlagningu þjóðfélagsþegna (85%) og þjónustugjöldum (15%) að litlum hluta. Landið skiptist í umdæmi heilsugæslu hvert með sína heilsugæslustöð, sum hver rekin í samvinnu við umdæmissjúkrahús.

ALMANNATRYGGINGAR OG FÉLAGSLEG ÞJÓNUSTA

Tryggingastofnun ríkisins (TR) gegnir undirstöðuhlutverki í íslensku velferðarkerfi, með almannatryggingar einn stærsta málaflokk heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. TR starfar samkvæmt lögum um almannatryggingar (nr. 117/1993), lögum um félagslega aðstoð (nr. 118/1993) og lögum um sjúklingatryggingu (nr. 111/2000). Stofnuninni er falið er að annast framkvæmd almannatrygginga og félagslegrar þjónustu með umsjón fjárhagslegra bóta og styrkja til Íslendinga, auk þjónustu við aðrar þjóðir samkvæmt milliríkjasamningum [24]. Til almannatrygginga teljast lífeyristryggingar, sjúkratryggingar og slysatryggingar, ásamt greiðslu heilbrigðisþjónustu við almenning og fæðingarorlofs sem nú hefur verið fært yfir til Vinnumálastofnunar [6].
[6].

LÖG OG REGLUGERÐIR

Lög um heilbrigðisþjónustu (nr. 97/1990) kveða einnig á um skyldur hins opinbera, en þar segir í 1. gr.: „Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.” Ýmis lög um starfsréttindi heilbrigðisstétta eiga einnig að tryggja fagmennsku og öryggi þjónustunnar.
Lög um réttindi sjúklinga (nr. 74/1997) voru sett til að styrkja stöðu notenda heilbrigðisþjónustu og treysta samband þeirra við starfsfólk. Þar er mjög skýrt kveðið á um rétt notenda til að hafa aðgang að eigin heilsufarsskrá og segir meðal annars í 14. grein: „Skylt er lækni og öðrum sem færa sjúkraskrá að sýna hana sjúklingi eða umboðsmanni hans, í heild eða að hluta, og afhenda þeim afrit skrárinnar sé þess óskað.”
Upplýsingalög (nr. 50/1996) taka til stjórnsýslu ríkis og sveitafélaga og starfsemi sem falið er opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt og skyldur. Þau kveða einnig, ásamt læknalögum (nr. 53/1988), skýrt á um rétt notenda til að eiga frumkvæði að því að fá aðgang að eigin heilsufarsskrá og erindið skuli afgreitt svo fljótt sem unnt er [25].