FRAMKVÆMD HEILBRIGÐIS- OG ALMANNATRYGGINGASTARFSEMINNAR

Framkvæmd starfsemi, aðgengi þjónustu og upplýsinga, rafrænt aðgengi með tilkomu upplýsingatækni notenda heilbrigðisþjónustu.


Heilbrigðis og almannatryggingastarfsemin nær yfir allt sem viðkemur heilbrigði og velferð almennings, frá upphafi lífs til endaloka. Samkvæmt velferðarhugsjónum á þjónustan að stuðla að almannaheill og stjórnast af lögmáli um sanngjarna jöfnun lífskosta [1, 23]. Upplýsingatæknin hefur átt drjúgan þátt í að skýra áherslur á einstaklings- og upplýsingamiðaða þjónustu. Starfsemin er háð tölvu- og samskiptatækninni, því gott aðgengi þjónustu og upplýsinga gerir þjónustuna mun skilvirkari og auðveldari í framkvæmd [18,26,27].

ÞJÓNUSTA

Heilbrigðisþjónustan er háð góðu upplýsingaflæði og góðri samhæfingu starfseminnar. Rafrænu umhverfi fylgja miklar breytingar svo ekki verður hjá því komist að brugðist verði við þeim breytingum með uppbroti á gömlum hefðum og föstum mynstrum þjónustunnar [27].
Gæði og gott aðgengi þjónustu breytir miklu um forvarnir og spornar jafnvel við sjúkdómum sem leiða til örorku. Aukinn stuðningur öryrkja til sjálfshjálpar og starfshæfingar gæti haft áhrif og dregið úr fjölgun öryrkja. Örorku má meðal annars rekja til mengunar, offitu og hvers kyns álags. Heilsufar og örorka ákvarðast af flóknu samspili fjölmargra þátta þar á meðal lífskjara og sjúkdóma [19].

Heilsugæslan er einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar þar sem unnið er að þjónustu heilbrigðra og sjúkra sem ekki dveljast á sjúkrahúsum. Heilsugæslustöðvar bera ábyrgð á þjónustu við notendur, meðferð og rannsóknum. Heilsugæslunni tilheyra einnig þjónustuþættir eins og heimahjúkrun, fjölskylduráðgjöf, mæðravernd, heilsuvernd barna, og skólahjúkrun [22].

Sjúkrahús eru hver sú stofnun sem ætlað er vista sjúkt fólk. Hlutverkið er þríþætt, þjónusta, kennsla heilbrigðisstétta og vísindarannsóknir. Sjúkrahúsum er skipt í: a) svæðissjúkrahús: „sem eitt sér eða í samvinnu við önnur veitir sérfræðiþjónustu í öllum eða flestum greinum læknisfræðinnar sem viðurkenndar eru hérlendis og hefur aðgang að stoðdeildum og rannsóknadeildum“; b) deildasjúkrahús: sem veitir „sérhæfða meðferð í helstu greinum lyflæknisfræði og skurðlæknisfræði og nýtur þjónustu stoðdeilda til þess að rækja það starf, svo sem röntgendeilda, svæfingadeilda, rannsóknadeilda og endurhæfingardeilda“; c) almenn sjúkrahús sem samkvæmt skilgreiningu laganna „tekur við sjúklingum til rannsókna og meðferðar og hefur einnig aðstöðu til vistunar langlegusjúklinga. Sjúkrahús sem hefur á að skipa sérfræðingum í handlæknisfræði, lyflæknisfræði eða heimilislækningum“ [22].

UPPLÝSINGAR

Upplýsingaöflun og vinna með persónuupplýsingar er undirstöðuþáttur og lífæð í starfsemi heilbrigðis- og almannatryggingaþjónustunnar. Skráning upplýsinga hefur þróast um aldir, ávallt með sama tilgangi og grunnforsendum. Gagnsemi upplýsinga er háð gæðum, heildleika, uppfærslu og aðgengileika hvar og hvenær sem þörf er [28].
Upplýsingatæknin miðast við öflun, meðferð og varðveislu upplýsinga. Gögnin (data) eru hrátt innlegg texta, talna, tákna og mynda, safn eininga í tilgreindu viðfangsefni, sem við skipulagða úrvinnslu og framsetningu verða nytsamar upplýsingar (information) og nýtast sem þekking (knowledge) [28]. Upplýsingarnar á að vera hægt að nálgast sem staðreyndir, hugmyndir og hugtök, ýmist með handvirkri eða rafrænni vinnslu og miðlun. Skipulagðar upplýsingar um ákveðið málefni, mótaðar með tengslum eininga í gögnum og upplýsingum, verða nytsamur grunnur þekkingar sem beitt er við vísindi og ákvarðanatöku [29,30].
Heilsufarsupplýsingar notenda hafa verið skilgreindar sem allar þær upplýsingar sem auðvelda einstaklingum að skilja eigið heilsufar og taka ákvarðanir varðandi eigin heilsu og fjölskyldunnar. Hugmyndir um aðgang notenda að heilsufarsupplýsingum beinast æ meir að aðgangi sem gerir ráð fyrir aukinni samvinnu notenda og fagstétta [14].