ÚTKOMA HEILBRIGÐIS- OG ALMANNATRYGGINGASTARFSEMINNAR


Styrking notenda, lykilstef árangursríkrar heilbrigðisþjónustu. Útkoman sýnir árangur þjónustu og starfsemi, birtir velferð og ánægju notenda með skilning, viðhorfum og óskum.


Bætt aðgengi getur skipt sköpum fyrir ánægju og lífsgæði notenda [8]. Samkvæmt hugmyndafræðinni um blómið birtist jákvæður árangur og velferð notenda í útgeislun blómkrónunnar. Árangurinn felst meðal annars í styrk notenda gagnvart þjónustunni, svo sem aukinni getu til sjálfshjálpar, skilning, virkri þátttöku, ásamt áhrifum á eigin heilsu og velferð [31].

Upplýsingatækni og gagnvirk samskipti notenda og þjónustuaðila eiga að geta bætt árangur og haft víðtæk áhrif á heilbrigðis- og almannatryggingaþjónustuna. Megin markmiðið er að efla heilbrigði og lina þjáningu vegna veikinda, eins og áður sagði [31]. Rannsóknir hafa sýnt að aðgangur upplýsinga styrkir notendur til að afla þekkingar, skilja heilsutengdar upplýsingar og vernda eigin heilsu [9]. Eignarétti yfir eigin sjúkdómi þarf að fylgja styrkur til að fylgja eigin ásetningi og breyta samkvæmt skilningi. Styrkurinn felst í ákvörðunum varðandi eigin heilsu og frjálsræði til eftirfylgni [32].

Notendur heilsufarskerfa eru öruggari en aðrir í framkomu, ábyrgðin er meiri, traustið gagnkvæmt og samskipti við starfsfólk auðveldari. Þeir spyrja oft gagnlegri spurninga og viðtölin nýtast betur, verða styttri og afslappaðri [9, 14, 33,34]. Einnig hefur sýnt sig að notendur heilsufarskerfa eiga auðveldara með sjálfshjálp [14] eru betur upplýstir um eigin heilsu og lyfjanotkun og þjónusta heimahjúkrunar verður auðveldari þegar þeir geta bætt við upplýsingum og persónulegum óskum [16].

Rannsóknir hafa sýnt að bætt upplýsingastreymi hefur jákvæð áhrif á samvinnu notenda og heilbrigðistarfsmanna og upplýst traust eykur þátttöku í eigin meðferð [9, 16, 34,35]. Þá hefur sýnt sig að gagnvirk samskipti geta oft komið í stað beinna viðtala og í sumum tilvikum gert þau óþörf. Hagræðingin getur verið mikil við gerð lyfseðla, lyfjasögu og upplýsinga um lyf. Ennfremur gera gagnvirk samskipti fræðandi upplýsingar mun aðgengilegri og gagnsemi sameiginlegrar dagbókar fyrir bókanir er ótvíræð, fyrir utan að auðvelt aðgengi að upplýsingum gefur líka tilfinningu um góða eftirfylgni [35].

CHESS er heilsufarskerfi notenda sem hefur sýnt fram á jákvæð áhrif á lífsgæði, tilfinningalega líðan og leit notenda eftir stuðningi. Notkunin var ekki mest hjá þeim sem þurftu heilsufarslega mest á henni að halda. Samskipti hópa með sömu sjúkdóma voru gagnleg. Tilraunaverkefni með 24 börn alkóhólista í 10 vikna geðmeðferð, með eða án CHESS, sýndi mun meiri þátttöku þeirra sem notuðu kerfið eða 20 á móti 9. Þátttakan varð svo 20% meiri þegar aðgangur að CHESS var boðin með geðmeðferð. Við þetta kviknaði áhugi á árangri og áhrifum CHESS með geðmeðferð [9]. Íslenska samstarfsverkefnið “Þjóð gegn þunglyndi” er dæmi um vettvang sem gæti nýtt slíkan hugbúnað sem stuðningskerfi. Þannig væri hægt að opna möguleika til aukins árangurs í meðferð þunglyndis [40].

Gagnvirk heilsufarskerfi hafa víða verið innleidd í daglega starfsemi og meðal annars sýnt árangur varðandi tilfinningalega líðan, lífsleikni og hugarfarslega virkni notenda [9]. Talið er að notendur með auðvelt aðgengi að heilsutengdum upplýsingum sinni frekar einkennum sem þeir annars hefðu látið ógert [36]. Auk þess hefur verið sýnt fram á mikla möguleika Netsins til að koma til móts við óuppfylltar þarfir notenda (N=300) í heilsugæslu [37].

Aðgengi að þjónustu er metið út frá viðbrögðum og fjölmörgum áhrifaþáttum [7, 13], sem þurfa að samræmast væntingum og gildismati notenda og samfélags og tengjast vísindalegri þekkingu. Einnig er nauðsynlegt að meta framkvæmd þjónustunnar og skilning samskipta og [38]. Útkomuna á að vera hægt að rekja til viðmiða um fullnægjandi árangur. Ein mesta áskorunin felst þó í samhæfingu mótsagna varðandi óskir einstaklinga annars vegar og hins vegar samfélagsins í heild [39].